Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

Tilkynning frá No Borders Iceland: Tveir dregnir fyrir dóm

Enn og aftur hefur íslenska ríkið ákveðið að sýna hver skilningur þess og framkvæmd er hvað varðar réttlæti þess.

Ríkisvaldið hefur ákveðið að draga tvo einstaklinga fyrir dóm sem voru handteknir þar sem þeir tóku þátt í setuverkfalli í dómsmálaráðuneytinu 5. apríl 2019, í opnu anddyri ráðuneytisins á almennum opnunartíma.

Hið meinta brot er að „óhlýðnast fyrirmælum lögreglu“,  fyrirmæli sem þurfa ekki að hafa neinn rökstuðning sér að baki til að hægt sé að lögsækja fólk fyrir að óhlýðnast þeim. Og þar með hefst þessi ferð í sýru réttarkerfisins.

Fyrirtaka málsins er í fyrramálið, 2. júlí klukkan 09:45 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Við hvetjum öll til að mæta klukkan 09:30 og sýna stuðning við þá sem á að ákæra. Einnig viljum við biðja fólk að mæta með grímur, til að vernda sjálf sig og önnur frá því að lögreglan geti borið kennsla á þau, og vegna nýlegra hópsmita COVID-19.

Við stöndum frami fyrir uppreisn sem leidd er af svörtu og brúnu fólki, þar sem ótrúlegur fjöldi rís upp gegn rasísku ofbeldi vestrænna ríkja og berjast fyrir róttækum breytingum á samfélagsgerðinni. Ráðamenn víðsvegar eru látin svara til saka fyrir óréttlæti og ofbeldi framið gegn svörtu fólki í dag, sem og á fyrri tímum.

Við höfum svo sannarlega séð að réttlæti íslenskra yfirvalda er ekki af sama toga og það réttlæti sem Black Lives Matter hreyfingar víðsvegar um heiminn kalla eftir, t.d. með slagorðinu: „No Justice, No Peace! Abolish the Police!“.

Við bendum fólki á að fylgja Black Lives Matter Iceland sem nýverið skipulögðu stór mótmæli gegn kerfisbundnum rasisma og til að krefjast réttlætis fyrir George Floyed og öll hin ótalmörgu sem hafa verið myrt af lögreglunni.

Það hefur kristallast í atburðum síðastliðnar vikur og mánuði að réttlæti ráðamanna á Íslandi snýst ekki um mannréttindi fólks af erlendum uppruna, hvort sem það kemur hingað til að vinna eða til þess að sækja um alþjóðlega vernd. Miklu fremur snýst það um að moka skattfé til stórfyrirtækja sem mörg eru hálfvegis í eigu ráðamannanna sem úthluta féinu, viðhalda úreltri og mannfjandsamlegri stefnu í vímuefnamálum, eyða stórfjár í aukið landamæra eftirlit í formi sérstaks landamærabíls sem áreitir verkafólk af erlendum uppruna og lögreglan stærir sig af „racial profiling“ aðgerðum sínum í fjölmiðlum, hundsa algjörlega stórfelld launarán fyrirtækja á erlendu starfsfólki sínu, svo ekki sé minnst á það mansal sem tíðkast hjá íslenskum starfsmannaleigum. Síðast en ekki síst virðast íslensku yfirvöld elska að neyða fólk í brottvísunarflug sem oftar en ekki þýðir líf á götum eða í ólífum flóttamannabúðum um leið og þau vinna hörðum höndum að því að herða enn fremar útlendingalöggjöfina, svo auðveldara verði að vísa fólki úr landi.

Setuverkfallið sem átti sér stað í ráðuneytinu í apríl á síðasta ári voru liður í öldu mótmæla sem skipulögð voru af fólki sem leitaði hér alþjóðlegrar verndar. Var setuverkfallið í dómsmálaráðuneytinu haldið til þess að þrýsta á dómsmálaráðherra að hitta flóttafólk og ræða kröfur þeirra sem voru eftirfarandi:

1. Ekki fleiri brottvísanir, byrja á að stöðva brottvísanir til Grikklands og Ítalíu.

2. Efnismeðferð fyrir alla, sérstaklega fólk sem telst vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu og fólk sem á það á hættu að vera vísað til óöruggs lands frá öðru Evrópuríki.

3. Atvinnuleyfi á meðan á umsókn stendur.

4. Jafn aðgangur að heilbrigðiskerfi.

5. Að endir sé bundin á einangrunina sem flóttafólk á Ásbrú og annars staðar fyrir utan höfuðborgarsvæðið býr við.

Ekkert af þessu hefur verið bætt, heldur þvert á móti er nú stefnt að því að herða löggjöf svo fjölga og flýta megi brottvísunum, einangrun og fjárhagsleg nauð hefur aukist þar sem stór hópur fólks sem sækir um alþjóðlega vernd fær ekki lengur vikulegan 10 þúsund krónur heldur fá þau sérstakt kort sem einungis má versla með í ákveðnum verslunum. Það þýðir að þau geta ekki lagt fyrir til að spara fyrir lögmönnum eða til að kaupa sér hlý föt og þau geta ekki keypt sér strætó miða til að komast þangað sem þau þurfa.

Varðandi heilbrigðiskerfið er Kai Blöndal, sam gaf út fit-to-fly vottorð fyrir brottvísun 26 ára konu sem var komin 36 vikur á leið án þess að hafa nokkurn tímann hitt hana eða skoðað, en við störf hjá Útlendingastofnun og aðgengi að almennri heilbrigðisþjónustu hefur ekkert batnað.

Mætum á morgun klukkan 9:30 og sýnum stuðning við fólk sem nýtti mótmælarétt sinn í samstöðu við fólk á flótta og ríkisvaldið hefur ákveðið að hegna fyrir það.

One Comment on “Tilkynning frá No Borders Iceland: Tveir dregnir fyrir dóm

  1. Pingback: Ári seinna ræðst dómkerfið til atlögu - Ofsóknir ríkisvaldsins á hendur aðgerðarsinnum No Borders Iceland - Andrými

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

*

code