Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

Ári seinna ræðst dómkerfið til atlögu – Ofsóknir ríkisvaldsins á hendur aðgerðarsinnum No Borders Iceland

Þriðjudaginn 17. ágúst kom lögregla á heimili aðgerðarsinna sem tók þátt í friðsælum mótmælum  í mars 2019 gegn brottvísunum og slæmri meðferð íslenskra yfirvalda á flóttafólki. Lögreglan lét ekki vita af sér fyrirfram og hafði ekki reynt að ná í viðkomandi í síma. Lögreglan neitaði að hafa samband við lögmann viðkomandi og hótaði að handtaka hann. Ástæða heimsóknarinnar er sú að viðkomandi er sakaður um að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu á friðsömum mótmælagjörningi í mars 2019.

Gjörningurinn fór fram fyrir framan Alþingishúsið þar sem nokkrir mótmælendur stóðu með bil á milli sín fyrir framan inngang Alþingishússins með límt fyrir munninn og með hendurnar á lofti. Í lófunum stóð Stop Deportations. Þetta var aðgerð sem fól ekki í sér neina röskun á eðlilegu ástandi og var einungis hugsuð sem aðferð til að vekja athygli á kröfum flóttafólks. Öll sem vildu komast inn og út úr Alþingishúsinu gátu það óhindrað og enginn hávaði fylgdi gjörningnum. Þrátt fyrir það fór lögreglan offorsi og handtók þrjá einstaklinga fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.

Núna, um einu og hálfi ári seinna, mætir lögreglan heim til eins þeirra sem voru handtekinn og tilkynnir að viðkomandi þurfi að mæta í skýrslutöku vegna myndbandsupptöku af atvikinu. Viðkomandi var þá búinn að fara í skýrslutöku og á ekki að þurfa að fara í aðra skýrslutöku nema með ákvörðun dómara. Þegar hann neitaði að fara í skýrslutöku hótuðu þeir að handtaka hann og neituðu að hafa samband við lögmanninn hans þegar hann bað þá um það.

Það er greinilegt að þessi dramatík yfirvaldsins yfir óhlýðni við lögreglu, sem samsamast sekt upp á 10 þúsund krónur, snýst um meira en að framfylgja þeim lögum og reglum sem þau reyna í sífellu að þvinga upp á okkur. Ætla má að yfirvöld vilja setja fordæmi fyrir öll þau sem standa upp gegn valdi og valdbeitingu með því að íþynjga aðgerðarsinnum með valdbeitingu lögreglu og löngum og dramatískum dómsmálum, en nýlega voru tveir einstaklingar dregnir fyrir dóm fyrir að „óhlýðnast fyrirmælum lögreglu“.

Einnig mun mál Ragnheiðar Freyju og Jórunnar Eddu bráðlega vera tekið fyrir í Landsrétti.

Stöndum saman gegn ofsóknum ríkisvaldsins!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *