Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

gildi

Tilgangur Andrýmis er að útvega rými fyrir grasrótarhreyfingar og frjáls félagasamtök til að skipuleggja sig og halda viðburði, auk þess að vera öruggara rými fyrir þau sem hafa fáa eða enga griðarstaði – þá sérstaklega flóttafólk. Með sjálfstæðri starfsemi sinni og skipulagningu vill Andrými greiða leið fyrir frekari baráttu í anda valdeflingar, frelsis, jafnréttis og gagnkvæmrar hjálpar.

Andrými ögrar viðteknum hugmyndum um eignarhald, stigveldi og markaðsvæðingu í heiminum og þess vegna er rýmið kallað róttækt félagsrými.

Innan Andrýmis er lögð rækt við annarskonar skilning á menningu og félagslegum tengslum. Nafnið andrými merkir „rými til að anda“ – í Andrými ætti fólki að geta liðið öruggu og frjálsu, það er staður þar sem fólk getur safnast saman til að læra, deila með öðrum og velt hlutunum fyrir sér til þess að geta síðan borið nýjar hugmyndir og aðgerðir með sér út í samfélagið.

Andrými viðurkennir margþætta mismunun (e. intersectionality)  og vinnur samkvæmt því gegn hverskonar kúgun í samfélaginu. Einnig er leitast við að efla samfélagsleg gildi byggð á samfélagslegu réttlæti, náttúruvernd, gagnrýnni hugsun og hverskonar andstöðu við yfirráð og -völd. Sem samfélag bjóðum við sérstaklega velkomin og styðjum einstaklinga sem fara á móti straumnum (e. non-conformist) eða tilheyra minnihlutahópum svo sem innflytjendum, flóttafólki, hinsegin aðilum, konum, brúnu fólki (e. people of color), öryrkjum, láglauna fólki, ungmennum o.s.fr.
 13403282_638346986322161_809712004520317618_o

Andrými miðar að því að grafa undan forgangsröðun stigveldis, auðæfa, mikilvægi samfélagsstöðu og hefðbundinna samfélagshlutverka sem okkur er úthlutað á grundvelli uppruna, kyns, kynferðis, stéttar, líkamsbyggingu, starfs, pólitískra skoðana, heilsu, aldurs, heimilisaðstæðna og annarra breyta. Því markmiði er náð með því að útvega stað fyrir þau sem vilja berjast gegn þeim samfélagslegu meinum sem eiga rætur sínar að rekja til slíkrara forgangsröðunnar.

Andrými tengist engri flokkapólitík og engin starfsemi á vegum pólitískra flokka er velkomin í rýmið.  Andrými er heldur ekki rekið í hagnaðarskyni og ekkert á vegum Andrýmis er gjaldskylt. Í nútíma samfélagi eru peningar algengasta leiðin til að drottna yfir fólki og kúga það. Andrými leggst alfarið gegn þeim einstaklingum og kerfum sem tilbiðja peninga eða nýta þá til þess að kúga aðra. Það á einnig við um einstaklinga og kerfi sem nota annað fólk til að skapa umfram fjármagn sem það greiðir sjálfu sér út á kostnað þeirra sem vinna vinnuna sem skapar þessi sömu verðmæti.

Andrými byggir á hugmyndafræði um sjálfsskipulagningu (e. self organasing). Við bjóðum öll þau velkomin sem deila þessum gildum og markmiðum.

sjálfsskipulagning: þegar frumkvæði er tekið af fólki ákveðins samfélags um framkvæmdir sem varða breytingar á nærumhverfi þess. að vinna saman í þágu okkar sjálfra og samfélagsins okkar.