Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

Andrými þarf á stuðningi ykkar að halda !

Kæru vinir og félagar Andrýmis 🖤

Andrými þarf á stuðningi ykkar að halda !

Síðast þegar við kölluðum eftir aðstoð var það vegna þeirra áhrifa sem fjöldatakmarkanir Covid-19 höfðu á getu Andrýmis til að standa undir rekstrarkostnaði. Í kjölfarið gerði Andrými viðbótarsamning við Reykjavíkurborg um tímabundna lækkun á leigu, en eftir að hafa skilað inn uppgjöri fyrir árin 2019-2022 kom í ljós að Andrými stóðst ekki þær kröfur sem Reykjavíkurborg hafði sett til þess að lækkunin myndi gilda. Því þarf Andrými að greiða afturvirka leigu um tvö ár aftur í tímann.

Stór hluti skuldarinnar hefur nú þegar verið greiddur með því að nota sparnað sem Andrými á, en okkur vantar þrátt fyrir það um 900.000 ISK í viðbót til að geta greitt eftirstandandi skuld sem nú er í höndum Momentum.

Margt smátt gerir eitt stórt og við vonum að þið getið séð af einhverjum þúsundköllum til að aðstoða við þessa stóru skuld sem kom mjög flatt upp á samfélagið í Andrými.

Þó að það vanti stóra summu upp á núna hefur Andrými hingað til verið sjálfbært. Við viljum halda áfram að vera sjálfbær, en það er einungis hægt með frjálsum framlögum og er lang best ef að fólk getur sett upp mánaðarlegar innlagnir, upp á t.d. 1.500-2.500 krónur.

Síðast en ekki síst viljum við benda á það á endilega deila þessari færslu áfram svo að skilaboðin komist til sem flestra 🌱

Reikningsupplýsingar:
Kt: 421216-0100
Reikningsnr. 0133-26-012275

***

Fyrir þau sem vita ekki hvað Andrými er, eða hafa ekki haft tök á að fylgjast mikið með upp á síðkastið þá er hér smá um hvað hefur verið á döfinni síðustu mánuði og ár:

Andrými er tæplega 7 ára og er í dag staðsett á Bergþórugötu 20, í gulu bárujárnshúsi. Húsið iðar af lífi og er skipulagt og notað daglega af ýmsum félagasamtökum, óformlegum, sjálfskipulögðum grasrótarhópum og einstaklingum.

Á síðustu árum hefur færst í aukana að húsið sé notað sem fundarrými fyrir ýmsa hópa, en það var einmitt eitt aðalmarkmið Andrýmis þegar það var sett á legg: útvega gjaldfrjálst rými fyrir grasrótarhópa og einstaklinga til að skipuleggja baráttu í anda samfélagslegs réttlætis, valdeflingar, frelsis, jafnréttis og gagnkvæmrar hjálpar.

Frískápur var settur á laggirnar fyrir utan Andrými og hefur hlotið mikið lof. Hann er nýttur af fjölda manns og í hann leitar fólk allan sólarhringinn.

Síðustu misseri hafa verið mjög hörð fyrir fólk á flótta, en nýlega var samþykkt löggjöf sem heimilar ríkinu að svipta ákveðið flóttafólk allri þjónustu, þar á meðal húsnæði og matarpening. Fólk á flótta hefur alltaf verið sérstaklega velkomið í Andrými og hefur í gegnum tíðina nýtt sér húsið mjög mikið, og þá sérstaklega síðustu vikur, þegar þau hafa ekki í nein hús að venda (rétt er að taka fram að enginn sefur í Andrými, heldur nýtir fólk sér aðstöðuna yfir daginn).

Þegar samkomutakmarkanir voru vegna Covid-19, breyttist hið vikulega samfélagseldhús í frímarkað, þar sem fólk gat komið og sótt sér matarpoka án endurgjalds, en var þó hvatt til að gefa frjáls framlög ef það gat. Frímarkaðurinn á sér ennþá stað í Andrými annan hvern föstudag og það er alltaf mikið um að vera á þeim tímum!

Bókasafn Anarkista, Andspyrna er ennþá á sínum stað, og bætist stöðugt í safnið. Síðan bókasafnið flutti á Bergþórugötuna hefur verið stofnuð ný femínísk og hinsegin kategoría með mikið af spennandi titlum.

Og margt, margt fleira. Best er að fylgjast með á heimasíðunni okkar www.andrymi.org, eða á facebook og Instagram (sem er nýbúið að setja á laggirnar, betra seint en aldrei, eða hvað?)

Áfram sjálfsskipulagning, samstaða og andspyrna ! 🌹✊🏽

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *