Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

Landsréttur hafnar áfrýjunarbeiðni í setuverkfallsmálinu

LANDSRÉTTUR HAFNAR ÁFRÝJUNARBEIÐNI.
19 gr. TROMPAR STJÓRNARSKRÁNNA.
Þann 1. desember var Kára Orrasyni birt niðurstaða Landsréttar þar sem rétturinn hafnar beiðni hans um áfrýjun á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar. Þar með er ljóst að íslenskir dómsstólar sjá ekkert athugavert við það að láta 19. gr lögreglulaga trompa þá vernd sem Stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmáli Evrópu eiga að tryggja einstaklingum hvað varðar tjáningarfrelsi og rétt til að mótmæla. Þessi ákvörðun hlýtur að færa yfirvöld einu skrefi nær því að vera lögregluríki, þar sem fyrirmæli lögreglu þurfa ekki að standa á neinum öðrum grundvelli en huglægu mati tiltekins lögreglumanns.
Í áfrýjunarbeiðninni eru færð ítarleg rök fyrir því hvers vegna málið hefur verulegt almennt gildi varðandi tjáningarfrelsi. Kári, ásamt fjórum öðrum sem einnig voru handtekin og ákærð, tók þátt í mótmælum í dómsmálaráðuneytinu sem snérist um stefnu stjórnvalda í málefnum fólks sem leitar eftir vernd á Íslandi. Einmitt vegna þess að mótmælin snéru að stefnu stjórnvalda teljast Kári og hin sem handtekin voru vera þátttakrndur í stjórnmálaumræðu, en þess konar tjáning nýtur ítrustu verndar samkvæmt dómafordæmi Mannréttindadómstóls.
Í úrskurði sínum leit Héraðsdómur einungis til framburðar lögreglumanna sem hann taldi sanna að „með fyrirmælum sínum hafi lögreglumenn verið að halda uppi lögum og reglu á almannafæri og með því að hlýða ekki fyrirmælum þeirra“ hafi Kári brotið gegn 19. gr. lögreglulaga.
Af þessu er ljóst að aðferðafræði héraðsdóms tekur ekki tillit til rétthærri laga um tjáningarfrelsi og þess mats sem þarf að fara fram samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu til þess að takmarka megi tjáningu.
Til að gera langa sögu stutta þá eru fjögur skilyrði til þess að takmarka megi tjáningu (sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 22. mars 2018 í máli nr. 2912018):
1) Takmörkunin þarf að eiga sér stoð í lögum,
2) Takmörkunin þarf að stefna að lögmætu markmiði,
3) Takmörkunin þarf að vera nauðsynleg
4) Takmörkunin má ekki ganga lengra en nauðsyn krefur í lýðræðssamfélagi
Ekki er að sjá á dómi héraðsdóms að nokkuð mat hafi farið fram á því hvort framangreind skilyrð hafi verið uppfyllt. Það er einfaldlega litið svo á að 19. gr. lögreglulaga sé fullnægjandi ein og sér þar sem lögreglumenn hafi verið að „halda uppi lögum og reglum á almannafæri“. Framangreind afgreiðsla getur hins vegar ekki talist fullnægjandi athugun á því hvort takmörkunin hafi stefnt að lögmætu markmiði, enda fór ekkert mat fram á því hvort rétt hafi verið að „halda uppi lögum og reglum á almannafæri“ með þeim hætti sem gert var heldur látið við það sitja að vísa í orðalag lagaákvæðisins.
Jafnvel ef litið yrði svo á að takmörkunin stefnt að lögmætu markmiði, þá skortir alfarið að þriðja og fjórða skilyrðið sé skoðað: var takmörkunin virkilega nauðsynleg? Og ef svo var, gekk hún lengra en nauðsyn krafði?
Enn fremur var lagt fyrir Landsrétt að jafnvel ef niðurstaðan yrði sú að nauðsynlegt hafi verið að fjarlægja Kára af vettvangi umrætt sinn, þá beri dómstólum í öllu falli að skoða sérstaklega hvort nauðsyn stæði til þess í lýðræðissamfélagi að ákæra og dæma ákærða fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu og hvort meðalhófs sé gætt með því. Engin slík athugun kom fram í dómi héraðsdóms og þannig var ekki gætt að skilyrðum 73. gr. stjórnarskrárinnar fyrir takmörkun á tjáningu.
Landsréttur hefur tekið þá afstöðu að stjórnarskrávarið tjáningarfrelsi Kára skuli lúta í lægra haldi fyrir 19. gr. lögreglulaga, án nokkurs rökstuðnings eða nánari athugunar.
En ekki nóg með það að takmarka eigi tjáningarfrelsið á þennan hátt, heldur voru þeir mótmælendur sem handtekin voru þann 5. apríl einnig svipt réttinum til að mótmæla, sem er varinn af bæði stjórnarskrá Íslands og Mannréttindasáttmála Evrópu. Nokkur skilyrði eru fyrir takmörkun á réttinum til að mótmæla og koma þau fram í Mannréttindasáttmála Evrópu:
Í fyrsta lagi þurfa lög að mæla fyrir um takmörkunina.
Í öðru lagi þarf nauðsyn að standa til takmörkunarinnar í lýðræðissamfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Héraðsdómur víkur ekki einu orði að því hvernig þessum skilyrðum var mætt umrætt sinn, og kannski ekki að furða þar sem erfitt væri að færa rök fyrir því að einu né neinu hafi verið stofnað í hættu með fámennum setumótmælum í opnu anddyri dómsmálaráðuneytisins.
Líkt og komið hefur fram í fréttum undanfarið hafa íslensk yfirvöld ekki miklar áhyggjur af því hvað Mannréttindadómstóli Evrópu finnst, en þó er vert að taka fram að Mannréttindadómstóllinn hefur litið svo á að þegar mótmæli varða stjórnvald sem jafnframt hefur vald til að stöðva mótmælin verði að beita mjög ströngum mælikvarða við mat á því hvort takmörkunin sé réttmæt eða nauðsynleg. Í þessu tilviki voru mótmælin í dómsmálaráðuneytinu og lögreglan send á vettvang til að stöðva þau. Þá hefur Mannréttindadómstóllinn sérstaklega varað við kælandi áhrifum (e. chilling effect) takmörkunar á réttinum til að mótmæla. Handtaka í mótmælum er eitt af því sem dómurinn lítur svo á að þurfi að réttlæta sérstaklega og efnislega, sem íslenskir dómstólar ætla sér ekki að gera. Með því skipar íslenska ríkið sér meðal annars í sveit með Aserbaísjan og Armeníu, þar sem mótmælendur voru handteknir í opinberum byggingum fyrir að fylgja ekki lögreglufyrirmælum, ákærðir og sakfelldir. Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fyrirmæli lögreglu stóðust ekki kröfur sáttmálans um lagastoð fyrir slíkri valdbeitingu.
Ásmundur Helgason, Krisbjörg Stephensen og Ragnheiður Harðardóttir landsréttardómarar, sjá þrátt fyrir allt ofantalið enga ástæðu til þess að samþykkja áfrýjunarbeiðni Kára og því verður næsta skref að áfrýja málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Við minnum á Styr, samstöðusjóð, þar sem söfnun fyrir málskostnaði fer fram:
Kennitala: 510219-1550
Reikningsnúmer: 0133-26-020574

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *