Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

CrimethInc. um 6. janúar 2021 og pattstöðu anarkista

Kunningjar okkar í anarkistakollektífunni CrimethInc. hafa birt stutta greiningu á atburðunum í Washington, D.C. síðastliðinn miðvikudag, þann 6. janúar 2021, þegar stuðningsfólks Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, réðst inn í þinghúsið þar í borg og reyndi að koma í veg fyrir að þingdeildirnar tvær staðfestu kjör „næsta Trumps“, eins og CrimethInc.–liðar kalla Joe Biden, komandi húsbónda Hvíta hússins. Jú, segja þau, atburðirnir hafa vissulega valdið usla og klofningi í Repúblikanaflokknum, en um leið byggja þeir enn sterkari stoðir undir hið fasíska bakland Trumps sem nú hefur öðlast píslarvotta í þeim sem létu lífið í átökunum og hefndarnarratífu sem nýst getur næstu árin, bæði til nýliðasöfnunar og réttlætingar á ofbeldisverkum. Atburðirnir verði stuðningsmönnum Trumps til hnjóðs í augum miðjumanna (æ… æ…) og muni vafalaust neyða einhverja Repúblíkana til að færa sig örlítið frá hægri og nær miðju, en þeir muni einnig færa til mörk hins samþykkta — og normalísera þannig enn frekar fasískt ofbeldi.

Það er þó alls ekki eina ógnin, undirstrika þau hjá CrimethInc. og benda á hættuna sem stafar af ákallinu eftir hörðum viðbrögðum yfirvalda við innrásinni í þinghúsið. Í nafni stríðsins gegn „öfgaöflum“ muni hin pólitíska miðja nú krefjast gífulegrar útþenslu sama kúgunarkerfis og notað er til að berja niður andóf gegn til að mynda kynþáttahyggju og kapítalisma. „Þetta er í meginatriðum það sama og átti sér stað í Þýskalandi Weimarlýðveldisins“, segja þau og minna í því samhengi á eitt helsta vopn Trumps gegn mótmælunum sem spruttu upp á síðasta ári og dreifðust um Bandaríkin öll í kjölfar morðsins á George Floyd: nefnilega Heimavarnarráðuneytið svokallaða (e. Department of Homeland Security) sem annar George, Bush forseti yngri, setti á fót í kjölfar árásanna á tvíburaturnana í New York og höfuðstöðvar bandaríska varnarmálaráðuneytisins í Washington þann 11. september 2001 — en á borði þess er meðal annars „stríðið gegn hryðjuverkum“ sem og eftirlit á landamærum og á internetinu. „Ákall miðjumanna um að barist sé gegn „glundroðanum“ mun hrekja marga bandamenn okkar burt af götunum og réttlæta um leið herferðir sem beinast munu gegn okkur ekkert síður en öfgahægrinu“, vara þau hjá CrimethInc. við.

Líkt og þau benda á eru anarkistar þannig í ákveðinni pattstöðu hvað varðar viðbrögð við atburðunum í Washington. Það væri auðvitað ekki nokkuð vit í því fyrir stjórnleysingja að standa vörð um kúgandi ríkisstofnun á borð við þingið og veita í leiðinni fasistum — hvort heldur í lögreglubúnigum eða ekki — kjörið tækifæri til að lúskra á ævafornum andstæðingum sínum. Á sama tíma er hætta á því að séu átökin eftirlátin eingöngu uppreisnarmönnum úr ranni öfgahægrisins annars vegar, og lögregluríkinu hins vegar, muni hinn takmarkaði pólitíski sjóndeildarhringur dagsins í dag þrengjast enn frekar. Verkefni anarkista sé því að koma fram með alternatíf viðbrögð við báðum fyrrgreindum öflum. „Við verðum að gera ráð fyrir möguleikanum á áframhaldandi árásum fasistahreyfingar sem vaxið hefur ásmegin um Bandaríkin öll, á sama tíma og stjórnvöld, vopnuð nýrri samstöðu þvert yfir miðjuna, innleiða aðgerðir sem hafa okkur að skotmarki ekkert síður en þá [fasistana]“, segja CrimethInc.–liðar og kalla eftir grasrótarskipulagningu og samstöðu á áður óþekktum mælikvarða.

Lesa má umfjöllunina (sem inniheldur einnig greinargóða tímalínu atburðanna) í heild sinni hér.

2 Comments on “CrimethInc. um 6. janúar 2021 og pattstöðu anarkista

  1. Bandaríkin eru vagga lýðræðisins. Ég las það í bakþankapistli aftan á Fréttablaðinu…

  2. Jarrod Shanahan er líka með góða punkta í grein á vef tímaritsins Hard Crackers, til dæmis um atburðina 6. jan. sem upphafið að virkni hreyfingar trumpista án Trumps:

    „Trump himself headlined a massive rally outside the White House, whipping up his supporters for a march on the Capitol he falsely claimed he would personally lead, before vanishing back into the White House, not interested in physically leading a coup after all. But it turned out the crowd didn’t need him to find its way to the Capitol. In a sign of things to come, Trump’s involvement became largely irrelevant, as the movement that has operated in his shadow took on a life of its own in the streets.“

    — og um möguleg/líkleg langtímaáhrif atburðanna:

    „Collective actions like the siege of the Capitol, no matter how ephemeral, register in the minds of millions of people the idea that drastic measures can be taken by ordinary people. Forget how risible or horrific it may seem to professional pundits or social media celebrities who shed tears for the sanctity of the “hallowed halls” where imperialist wars and austerity programs are hatched. The sight of gatecrashers angrily storming the Senate demanding Mike Pence reveal himself, a man in proletarian dress with his feet up on a desk in the office of the multi-millionaire powerbroker Nancy Pelosi, and the perverse fun most of them seemed to be having doing it, furnish powerful political images that speak to the widespread disgust with US life that’s just about the only thing everyone agrees on.

    What is our alternative?“

    Greinin í heild sinni hér.

Skildu eftir svar við Satan Níðhöggr Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *