Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

Aðgerðarsinni dæmdur „sekur“ um að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.

Í gær féll úrskurður í máli Ríkisins gegn Kára Orrasyni sem tók þátt í setumótmælum í dómsmálaráðuneytinu á opnunartíma þann 5. apríl 2019.

Kári var dæmdur sekur og er dæmt að greiða allan sakarkostnað samtals 603.560 krónur.

Arngrímur Ísberg, dómari í málinu tók ekki afstöðu til einnar einustu röksemdarfærslu verjanda Kára sem byggði fyrst og fremst á réttinum til að tjá pólitískar skoðanir á almannafæri í formi mótmæla og meðalhófsreglum. Vitnisburður Kára sem og annars vitnis var einnig virtur að vettugi af dómaranum, á meðan orð lögreglumannanna sem handtóku Kára, og höfðu valdbeitt og ógnað mótmælendum í marga mánuði á undan, voru tekin sem nægjanlega sönnun á „sekt“ Kára.

Arngrímur Ísberg dæmir Kára semsagt „sekan“ um að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að fara út úr opnu andyri ráðuneytisins án þess að taka afstöðu til þess hvort að fyrirmælin hafi verið það sem réttarkerfið kallar réttmæt eða nauðsynleg. Ekki er gerð nein grein fyrir því á hvaða hátt lögreglan var að „halda uppi lögum og reglu á almannafæri“, líkt og sést í brotinu sem fylgir þessari færslu.

Fyrir þau sem trúa yfirhöfuð á rétt lögreglunnar til að handtaka fólk eða valdbeita á annan hátt má segja að dómstólar telja lögregluna ekki þurfa neina haldbæra ástæðu fyrir þeim skipunum sem hún gefur einstaklingum, öllum beri að hlýða skilyrðislaust og án þess að hika. Dómarar standa með lögreglunni í gegnum súrt og sætt og lögreglan hefur þannig getað skipað fólki fyrir verkum og handtekið fyrir að taka þátt í mótmælum, eða standa á stað sem löggann vildi ekki að þú stæðir á, eða fyrir að spurja þá spurninga sem þeir vilja ekki svara.

Kári er ekki sá fyrsti og ekki sá síðasti sem ríkið reynir að þreyta í þessari hundleiðinlegu og langdregnu hringekju. Sé litið til dómasögu síðustu áratuga þegar kemur að mótmælum má sjá að svona hefur réttarkerfið hegnt þeim sem taka þátt í einhverskonar andófi gegn ríkis- og auðvaldinu í fjölda ára. Enn eiga fjórir aðrir einstaklingar eftir að vera dæmd fyrir sama mál og Kári og senn fer fram mál í Landsrétti yfir tveimur aðgerðarsinnum fyrir annað mál sem einnig tengist baráttunni gegn landamærum og brottvísunum.

Þau okkar sem sjá réttarkerfið sem íhaldssamt, kúgandi og ofbeldisfullt verkfæri ríkisins leiðist það farsakennda leikrit sem dómsmál eru. Við vitum líka að það er hluti af þeim yfirgangi og ofbeldi sem ríki beita þau sem vilja ekki þögul hlýða hverju sem er. Baráttan heldur áfram og við leyfum ekki fúlum lögreglumönnum, móðguðum ráðuneytisstarfsmönnum, dómurum með mikilmennskubrjálæði og súrum saksóknurum að koma okkur úr jafnvægi.
Við sjáum og vitum að allt það sem þau halda á lofti sem heilögu er í raun ekkert nema boð og bönn í skurðgoðaformi og þau skipta ekki nokkru máli.
Þess vegna hlæjum við og dönsum áfram, kynndum undir reiðinni og gleðinni sem knúa áfram alla skapandi og ögrandi hugsun og aðgerðir, jafnvel þótt slíkt feli stundum í sér sársauka og átök.

Niður með þjóðríkið, landamæri þessi, lögreglu, dómstóla, fangelsi og allar stofnanir þess sem hafa það að markmiði að brjóta á bak aftur viljann og gleðina til lífsins!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

*

code