Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

Hinsegin samstaða? Kallað eftir jaðarsettum röddum

Ein stór fjölskylda? Samræður um samstöðu innan hinsegin samfélagsins á Íslandi.

Hinsegin samfélagið á Íslandi lýsir sér oft sem einni stórri fjölskyldu. Það er væntanlega skýrskotun til þess að einstaklingar innan hinsegin samfélagsins standi saman, líkt og fjölskyldur eiga að gera. Auðvitað má ekki gleyma hvaðan fjölskylduhugmyndin kemur, en það er ekki svo langt síðan fjölskyldur okkar afneituðu okkur um leið og við komum út sem hinsegin. Í kjölfarið fundu sum okkar samstöðu og samastað meðal annars hinsegin fólks þar sem við mynduðum okkar eigin fjölskyldur um leið og við sköpuðum róttæka hinsegin menningu í kringum baráttu fyrir réttlæti og frelsi.

Stór hluti hinsegin samfélagsins á Íslandi í dag er búið að aðlagast hinum ríkjandi, gagkynhneigðu samfélagsviðmiðum og mætir ekki miklum mótbarum. Þessi hópur á það til að vera hvað sýnilegastur í samfélagsumræðunni og þar af leiðandi er oft litið á þau sem talsmenn hinsegin samfélagsins alls. Eigum við þá fyrst og fremst við um hvítt, samkynhneigt, íslenskt fólk úr efri- og millistétt. Raunveruleiki margs hinsegin fólks er hins vegar allt annar en raunveruleiki ofangreinds hóps, en sjaldan er hlustað á raddir þeirra.

Þessi viðburður er ætlaður þeim okkar sem tilheyra ekki forréttindahópi hinsegin samfélagsins, heldur erum jaðarsett bæði af öðru hinsegin fólki sem og samfélaginu í heild. Þessi viðburður er fyrir allt hinsegin fólk sem stendur utan við normið: fátækt hinsegin fólk, hinsegin fólk með fatlanir, fatlað hinsegin fólk, hinsegin innflytjendur, heimilislaust hinsegin fólk, hinsegin vímuefnanotendur, hinsegin flóttafólk, svart- og brúnt hinsegin fólk, trans fólk, eikynhneigða, intersex fólk, hinsegin fólk í fangelsi, hinsegin börn og unglinga, hinsegin fólk í kynlífsvinnu auk allra þeirra sem upplifa kúgun og þöggun af hálfu samfélagsins.

Við köllum eftir pólitískri tjáningu í formi frásagna, hugleiðinga, reiðiranta og öllu öðru sem miðar að því að endurheimta okkar eigin narratívu og tilvist, hvort sem það eru upptökur, textar, ræður á staðnum, vídeóverk, teikningar, ljóðlist eða hvaða miðlun sem ykkur dettur í hug. Við hvetjum öll sem senda inn verk til þess að lýsa aðstæðum sínum og velta upp spurningunni hvernig raunveruleg hinsegin samstaða gæti litið út fyrir þau.

Hægt er að koma fram undir nafnleynd og við getum aðstoðað við hljóðupptökur, breytt rödd og lesið upp aðsenda texta. Efnið verður sýnt/spilað/lesið föstudaginn 7. ágúst í Friðarhúsinu á viðburði um hinsegin samstöðu á Íslandi og tengsl hennar við róttækar samfélagsbreytingar á við líkamlegt sjálfræði allra, niðurfellingu lögreglu, landamæra og fangelsa, sem og endalok fátæktar og heimilisleysis.

Textar, upptökur eða tilkynningar um þátttöku sendist á blackandpinkiceland@riseup.net fyrir 4. ágúst.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.

*

code