Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

Aðalmálsmeðferð gegn einstaklingi sem tók þátt í setumótmælum í apríl 2019

Í dag er aðalmálsmeðferð í máli aðgerðarsinna sem handtekinn var í setumótmælum í dómsmálaráðuneytinu 4. apríl 2019.
Alls voru 5 handtekin þennan dag fyrir það sama og hafa þau öll verið ákærð. Ákæran er: Þau hlýddu ekki fyrirmælum lögreglu.

Þegar mótmælin áttu sér stað var dómsmálaráðuneytið opið og fóru mótmælin fram í andyrinu, sem var opið. Krafan var mjög einföld og lýðræðisleg: að fulltrúar úr hópi fólks sem var að sækja um alþjóðlega vernd fengi að hitta dómsmálaráðherra til að ræða bágar aðstæður hópsins.
Það var búið að reyna í marga mánuði að ná eyrum ráðherra án árangurs. Fjöldi pósta hafði verið sendur, samstöðufundnir voru haldnir, erindi skrifað í samstarfi við Rauða Krossinn hafði verið sent á ráðherra og undirskriftarlisti verið afhentur, svo fátt eitt sé nefnt.

Þegar lögreglan mætti í dómsmálaráðuneytið þann 4. apríl tjáði hún sig einungis á íslensku og þegar lögreglumennirnir voru beiðnir um að tala á ensku til að allir gætu skilið hvað væri að gerast, svaraði Arnar Rúnar Marteinsson, sami lögreglumaður og tjáir sig í skjáskotinu hér að neðan, að á Íslandi væri töluð íslenska. Í bílnum á leiðinni á lögreglustöðina sagði lögreglumaður við aðgerðarsinna að ef hann fengi skipun um að skjóta þau í hausinn myndi hann gera það án umhugsunar. Þegar í fangaklefa var komið bað einn aðgerðarsinni um að það yrði töluð enska við hann en fékk þá einungis til baka „Ef þú talar ekki íslensku, hvers vegna ertu þá á Íslandi?“

Kerfisbundið ofbeldi ríkisins gegn fólki sem leitar verndar nær líka til aðgerðarsinna sem standa með baráttu þeirra og það er skýrt að þessum ákærum er ætlað að hrella fólk frá því að mótmæla ofbeldisfullri landamærastefnu þjóðríkja sem fela í sér brottvísanir, útlendingaandúð, rasisma og aðskilnaðarstefnu.

Á meðan hús brenna til grunna, yfirmenn stela ítrekað launum frá starfsfólki sínu og Samherji og Eimskip halda áfram að arðræna og framfylgja póst-nýlendustefnu, finnst íslenska réttarkerfinu mikilvægast af öllu að ofsækja verkamenn af erlendum uppruna og kenna þeim, sem lögreglan hefur kallað „ótillitsama“ mótmælendur, lexíu. Hlýðið, alveg sama hvort að skipanir séu réttmætar eða ekki, annars eigið þið ekki von á góðu.

Hvað þýðir það fyrir samfélag þegar einstaklingar geta ekki mótmælt án þess að eiga yfir höfði sér handtöku og ákæru, með öllu því sem fylgir?

Fyrir þau sem vilja leggja í sjóð þar sem við söfnum fyrir málskostnaði geta lagt inn á eftirfarandi:

Account number: 0133-26-020574
kennitala: 510219-1550

Dæmi dómstólar aðgerðarsinnum í vil verður peningurinn notaður í lögmannskostnað og annarskonar stuðning við fólk sem sækir um vernd á Íslandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *