Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

Yfirlýsing frá skipuleggjendum Hinsegin hinsegin daga

„Perhaps we don’t have to strive to be one community. In reality, there isn’t one women’s, or lesbian, gay, bi community. What is realistic is the goal to build a coalition between our many strong communities in order to form a movement capable of defending all our lives.“

-Leslie Feinberg, Living our True Spirit

Hinsegin fólk hefur varið sig gegn ofbeldi og ofríki yfirvalda og samfélagsins í áraraðir með mismunandi aðferðum; kynusla, fræðslu og múrsteinum í lögguhausa. Ef við skoðum sögur okkar og líf þá hljótum við að skilja hvað kúgun, valdbeiting og yfirráð þýða. Við hljótum að vilja binda endi á kerfin sem viðhalda því ástandi. Ekki bara fyrir „okkur“, heldur fyrir öll. Við hljótum að vilja að sá pólitíski straumur sem drífur áfram hinsegin baráttu á Íslandi standi gegn öllum kúgandi kerfum og stofnunum á við auðvaldið, Embætti landlæknis, Þjóðskrá, Útlendingastofnun, fangelsin og Lögregluna, svo fátt eitt sé nefnt.

Svo við spyrjum: Hvaða pólitíska stefna drífur áfram hreyfingu hinsegin fólks á Íslandi í dag, þar með talið Hinsegin daga 2020? Hagsmunir hverra eru þar hafðir að leiðarljósi? Er það stefna sem raunverulega setur líf, heilsu og velferð okkar allra í fyrsta sæti og hefur það markmið að standa vörð um okkur öll?

Það má ekki gleyma að hinsegin fólk tilheyrir einnig öllum öðrum hópum sem samfélagið jaðarsetur: við erum flóttafólk, við erum innflytjendur, við erum heimilislaus, við erum fötluð, við erum svört og brún, við seljum kynlíf, við erum fátæk, við erum öldruð, við erum alls staðar. Það að vera hinsegin og að tilheyra öðrum jaðarsettum hóp(um) eykur líkurnar á að vera skilin eftir í baráttunni. En við neitum að skilja fólk eftir og þess vegna berjumst við fyrir alltumlykjandi frelsi.

Sala og vöruvæðing hinsegin menningar er ekki frelsi. Uppbygging og viðhald landamærastefnu sem refsar hinsegin flóttafólki ítrekað með brottvísunum og félagslegri eingangrun er ekki frelsi. Þvingað samþykki trans fólks til að undirgangast meðferð hjá geðlæknum og sérstöku eftirlitsteymi til að geta lifað í sínu rétta kyni er ekki frelsi. Skurðaðgerðir á intersex börnum án þeirra samþykkis, en með samþykki ríkisins, er ekki frelsi. Láglaunastefna yfirvalda og stríðsrekstur NATO er ekki frelsi. Að neita einstaklingum sem „líta ekki út fyrir að vera skattgreiðendur“ um heilbrigðisþjónustu er ekki frelsi. Að refsa fólki fyrir heimilsleysi og/eða notkun vímuefna er ekki frelsi.

Hinsegin dagar hafa nú í allt of mörg ár átt í samstarfi við stofnanir sem ganga gegn frelsi okkar og hundsað tilvist og baráttu of margra okkar. Í fyrra réðst Lögreglan á hinsegin einstakling í Gleðigöngunni eftir að meðlimir í stjórn og göngustjórn Hinsegin daga bentu á viðkomandi einstakling sem ógn. Reglur Gleðigöngunnar gefa skýrt til kynna að markmið þeirra er að halda slíku samstarfi áfram. Hinseigin dagar hafa orðið að borgaralegri skemmtun sem úthýsir þeirri róttæku hinsegin baráttu sem pride-göngur eiga uppruna sinn að rekja til, en reglurnar segja:“Rétt er að allir séu vakandi fyrir vandamálum sem hugsanlega geta komið upp s.s. mótmælum og skemmdarverkum. Verði menn varir við slíkt skal hafa beint samband við lögreglu í síma 112 og síðan við öryggis- eða göngustjóra.”

Við teljum það að leyfa lögreglunni að taka þátt í vikunni þar sem við höldum uppá baráttu okkar vera niðurlægjandi, óviðeigandi og stofna öryggi okkar í hættu. Lögreglan er ekki þarna til að „vernda okkur“, eins og dæmið hér að framan sannar, því höfum alltaf verið fullkomlega fær um að verja okkur sjálf, ekki síst gegn lögregluofbeldi.

Þetta, og margt fleira, er ástæðan fyrir því að við, róttækt hinsegin fólk og anarkistar, skipuleggjum nú hinsegin hinsegin daga, þar sem allir viðburðir eru gjaldfrjálsir. Við ætlum að koma saman og horfa á kvikmyndir, tala og fræðast um hinsegin kynlíf, halda umræðuhópa og tónleika, gleðjast, njóta, minnast og reiðast, um leið og við mótmælum ríkjandi kerfum.

Hinsegin barátta er stöðug mótmæli og niðurbrot á ríkjandi ástandi. Hinsegin barátta er virk barátta, allan ársins hring gegn hinum ofbeldisfullu og kúgandi stofnunum ríkisins og birtist á allskonar hátt, meðal annars í mótmælum, beinum aðgerðum og skemmdarverkum.

Hinsegin barátta er virk barátta til að endurheimta okkar eigið líf og byggja breiða samstöðu á milli allra hópa hinsegin samfélagsins með hugmyndina um róttæka umbyltingu samfélagsins í heild að leiðarljósi.

„By „queer“, we mean „social war“. And when we speak of queer as a conflict with all domination we mean it.“

-Towards the Queerest Insurrection

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *