Bergþórugata 20, 101, Reykjavik andrymi@riseup.net

hvernig get ég tekið þátt?

Þau sem taka þátt í Andrými eru Andrými. Þess vegna fer öll vinna í kringum Andrými og innan þess fram á „láréttan“ hátt.
Það þýðir að allir sem koma að einhverskonar starfi innan andrýmis hafa rétt á að taka ákvarðanir og eru hvött til að taka frumkvæði. Enginn er „yfir“ og engin „stjórn“ er starfrækt.
hvernig eru ákvarðanir þá teknar?
Unnið eftir fyrirkomulagi sem byggir á samþykki allra sem láta ákveðið mál sér viðkoma. Slíkt fyrirkomulag kallast á ensku „formal consensus decision making“, sem hægt væri að þýða sem „formleg ákvarðanataka byggð á samhljóðan“. Hugmyndafræðin á bakvið þetta fyrirkomulag er að átök eru ekki endilega af því slæma og gagnrýni, hópvinna og fjölbreyttar raddir eru ómissandi hluti í baráttu gegn alræði og yfirráðum.

 

„Við verðum að læra að lifa í sátt og samlyndi, að leysa úr átökum okkar á óofbeldisfullan hátt og komast að ákvörðunum í sameiningu og samkvæða. Við verðum að læra að meta fjölbreytileika og virða allt líf, ekki einungis á efnislegu sviði, heldur einnig á tilfinningalegu, vitsmunalegu og andlegu svið. Við sitjum öll í súpunni saman.“  (On Conflict and Consensus : a handbook for formal decisionmaking.)

Að vinna eftir samhljóðan er ekki meðfætt, heldur lært. Hægt er að læra með því að mæta á fundi þar sem farið er eftir slíku fyrirkomulagi og fygjast með. Einnig er hægt að glugga í handbækur á við þessa sem vitnað er í hér að ofan. Andrými vinnur að því að búa til prógram fyrir námskeið í samhljóða ákvörðunartöku og verður það auglýst síðar.

þurfa allir að vera í öllu?
Til þess að auka skilvirkni, gera ferla sveigjanlegri og til að forðast að allir séu alltaf í öllu, hefur Andrými nýlega sett af stað kerfi byggt vinnuhópum.
Vinnuhóparnir annast mismunandi verkefni og skipum við okkur sjálf í vinnuhópa á 1-2 mánaða fresti. Miðað er að því að mannskapurinn í vinnuhópunum rúlli, þannig að við öðlumst sem flest þekking á sem flestum sviðum, án þess að þurfa vera öll í öllu á sama tíma.

Hér að neðan er listi yfir þá vinnuhópa sem nú eru starfandi. Listinn er ekki endanlegur og mun breytast í takt við þau störf sem þarf að sinna á hverjum tímapunkti:
Samskipti: Tilkynningar á Facebook, vefsíðu og eftirlit með tölvupósti. Einnig sér þessi hópur um að koma áfram upplýsingum um tímasetningu funda osfrv.

Styrkirog fjármögnun: Finna viðeigandi styrki eða aðra fjármögnunarmöguleika og sækja um þá í tíma.
Iðnó: Umhirða efnislega rýmisins, finna húsgögn og annað sem þarf í nýtt rými, sjá um að opna og loka, samskipti við aðra hópa í byggingunni.

Samstaða og aðgengi: Skilgreina hvað öruggara rými þýðir, búa til viðmið sem hægt er að vinna eftir, útskýra fyrir fólki hvað felst í hugmyndinni um öruggara rými og samstöðu. Tryggja að allir hópar sem koma í Andrými séu virkir þátttakendur í ákvarðanatöku, hafi þau áhuga á því.

Eldhús: Vinna í kringum og umsjá með vikulega eldhúsinu!

Fjölmiðlar: Sjá um að fjölmiðlaumfjöllun eftir því sem við á og sjá um samskipti andrýmis útávið að því leyti.

Dagskrá: Skipuleggur dagskrá komandi mánaðar, fundi, viðburði og annað sem á sér stað í andrými.

Tækni: Vinna í heimasíðunni og hverju því sem er tæknitengt innan starfsemi Andrýmis.
Fyrir hvern hóp hefur nú þegar verið skipaður ein umsjónarmanneskja (e. bottomliner = manneskja sem gengur út skugga um að öll störf séu unnin, með því að minna á og taka við staðfestingum á kláruðum verkum. Starf umsjónarmanneskju rúllar líka á milli einstaklinga.)

Stór, opinn fundur er haldinn á mánaðarfresti. Á þeim fundi koma vinnuhóparnir saman (a.m.k. einn aðili úr hverjum hóp) og skiptast á upplýsingum, einnig er skipað á ný í vinnuhópa eigi það við. Allar helstu ákvarðanir varðandi rýmið eru teknar á þessum fundum, en vinnuhópar sjá alfarið um að skipuleggja sína eigin fundi um minni mál. Einnig eru öll sem hafa áhuga á starfinu en eru óviss um hvort þau vilji taka þátt velkomin á opnu fundina til að fá tilfinningu fyrir starfseminni.

hvernig get ég byrjað?
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í vinnunni sem felst í einhverjum af þessum hópum (einum eða fleirum) getur þú fyllt út eyðublaðið hér að neðan og við höfum samband við þig. Einnig geturðu einfaldlega mætt í Andrými, kynnt þig og spjallað. Við hlökkum til að skapa í sameiningu rými fyrir mótspyrnu og baráttu, samstöðu og hlátur.