Skip to content

hvað er það?

13882459_666429706847222_1084130312137985624_n

andrými-samfélagið

Fjöldi fólks venur komur sínar í Andrými – ungbörn sem og ömmur og afar, fólk frá fjarlægum heimshlutum sem innfæddir Reykvíkingar, og fólk af öllum kynjum og kynhneigðum. Við bjóðum flóttafólk og innflytjendur sérstaklega velkomin. Almennt deilum við einnig yfirlýstum vilja til þess að verða hluti af samfélagi og byggja það upp, sýna hvert öðru umburðarlyndi og vinna að sameiginlegri frelsun undan kúgun. Andrými hefur einnig tengsl, byggð á gagnkvæmri aðstoð og samhjálp, við ýmis samtök sem starfa eftir gildum sem samræmast þeim sem Andrými byggir á. Að fenginni reynslu höfum við þó ákveðið að starfa ekki með stjórnmálaflokkum.

Sem stendur aðstoðar hópur fólks við að framkvæma viðburði og skipuleggja vöxt og framþróun Andrýmis, og aðrir hópar starfa að verkefnum á borð við hið vikulega opna eldhús. Markmið okkar er að auka sjálfstjórn og lýðræði í starfinu enn frekar og hafa alla ákvarðanatöku eins lárétta og kostur er.

 

andrými-hugmyndin

Hver og einn einstaklingur hefur örlítið mismunandi hugmynd um Andrými, og þannig á það að vera. Þó eru ýmsir þættir skýrir. Andrými hefur róttækan tilgang, nánar til tekið að greiða fyrir félagslegu og umhverfislegu réttlæti, frelsun fólks undan kúgun, umburðarlyndi og frelsi til hugsana og gjörða. Tilvist og skipulag Andrýmis fela einnig í sér róttækni með því að ögra viðteknum hugmyndum um eignarhald, stigveldi og markaðsvæðingu í heiminum, og leggja rækt við nýjar gerðir menningar, skilnings og félagslegra tengsla. Nafnið Andrými merkir m.a. „rými til að anda“ – í Andrými á fólki að líða eins og það geti leitað skjóls, safnast saman, velt hlutum fyrir sér, lært, skipulagt, og tekið þá reynslu með sér þegar það yfirgefur rýmið.