13882459_666429706847222_1084130312137985624_n

andrými-samfélagið

fjöldi fólks venur komu sína í andrými og tekur þátt í að mynda samfélagið sem andrými er. innan þess má finna unga sem aldna, fólk af ýmsum uppruna og af öllum kynjum og kynhneigðum, fólk úr mismunandi stéttum og með mismunandi bakgrunn. samfélagið býður flóttafólk og innflytjendur sérstaklega velkomin. uppbygging samfélagsins andrýmis veltur á því að viðurkenna fjölbreytileika okkar og taka honum opnum örmum. með slíkan grunn vinnur samfélagið gegn hverskonar misskiptingu. í andrými eiga sér einni stað samskipti við ýmis samtök sem starfa eftir gildum sem samræmast þeim sem andrými byggir á.

markmiðið er að allir í samfélaginu geti tekið þátt í ákvarðanatöku innan andrýmis. sjálfstjórn og lýðræði innan samfélagsins eru mjög mikilvægir þættir og stuðla að jöfnu aðgengi mismunandi aðila að allri ákvarðanatöku.

andrými-rýmið

frá og með fyrstu vikunni í nóvember 2017 verður andrými staðsett í iðnó, vonarstræti 3. ef ekkert efnislegt rými er til staðar er andrými ekki mögulegt. það er líka eini þátturinn sem þarf stöðugt fjármagn til að viðhalda og til þess að hægt sé að halda úti daglegri starfsemi sem er opin og aðgengileg öllum. í andrými má finna í eldhúsaðstöðu, aðgengileg klósett, skjávarpa, stóla, sófa, borð og aðstöðu fyrir börn. einnig er andspyrna, bókasafn anarkista, staðsett í rýminu.

andrými-hugmyndin

hver og einn einstaklingur hefur örlítið mismunandi hugmynd um andrými og þannig á það líka að vera. þó eru ýmsir grunnþættir á hreinu: andrými hefur ákveðinn tilgang sem er að greiða fyrir félagslegu réttlæti og náttúruvernd. barátta gegn kúgun og fyrir hugsana- og athafnafrelsi er í forgrunninn. tilvist andrýmis og vinnuaðferðir innan rýmisins eru í eðli sínu róttækar þar sem andrými ögrar viðteknum hugmyndum um eignarhald, stigveldi og markaðsvæðingu í heiminum. innan andrýmis er lögð rækt við annarskonar skilning á menningu og félagslegum tengslum. nafnið andrými merkir „rými til að anda“ – í andrými á fólki að líða öruggu og frjálsu, það er staður til að safnast saman á og velta hlutunum fyrir sér. staður þar sem við lærum og kennum svo að við getum borið nýja reynslu og þekkingu með okkur út í samfélagið.