Skip to content

hvað er það?

Rýmið:

andrými er róttækt félagsrými í Reykjavík. Rýmið er sjálfskipulagt og ekki rekið í hagnaðarskyni. Eitt af markmiðum okkar er að gefa samfélagsviðburðum, róttækum verkefnum og hópum andrými til þess að skipuleggja sig.

Við erum staðsett á Bergþórugötu 20 í fallegu, þriggja hæða húsi í miðbænum sem vill svo til að hýsti fyrsta félagsrýmið í Reykjavík. Þar erum við með fjölda herbergja sem hópar geta nýtt fyrir alls kyns verkefni, fundi eða viðburði.

Dagatalið okkar er skipt upp eftir þremur aðal herbergjum hússins. Á fyrstu hæð er andófsherbergið, en það er stærsta herbergið og rúmar um 30 sæti. Á annari hæð er skipulagsherbergið þar sem eru borð og stólar fyrir 10 manns og kósýherbergið með sófum fyrir 8 manns.

Við erum einnig með barnaherbergi , eldhús, verkstæði, kynlaus klósett og anarkíska bókasafnið Andspyrnu. Fyrir utan er stór garður með leiktækjum fyrir börn þar sem við ætlum fljótlega að hefja garðyrkju. Að auki stefnum við að því að opna útlánssafn fyrir verkfæri í kjallaranum okkar.

Andrými leggur ekki áherslu á að skipuleggja viðburði í rýminu. Þess í stað er rýmið ætlað til notkunar fyrir öll þau sem deila gildum okkar til þess að njóta góðs félagsskapar, sýna samstöðu og skipuleggja okkur í sameiginlegri baráttu gegn kúgun og óréttlæti. Í Reykjavík er mikill skortur á gjaldfrjálsum rýmum fyrir fólk sem hefur ekki efni á að leigja eða nota rými eftir þörfum. Aktivismi og samfélög þurfa á efnislegu rými að halda til að athafna sig í. Við krefjumst þess ekki að fólk borgi fyrir notkun andrýmis, en við tökum við frjálsum framlögum.

Í dagatalinu okkar er að finna alla viðburði sem eiga sér stað í rýminu. Einnig er hægt að kíkja við í opið hús á virkum dögum frá eitt til sjö og njóta góðs félagsskapar yfir kaffibolla, nota frítt net, skoða bókasafnið og lesa í næði.

Ef þig langar til þess að skipuleggja eitthvað í rýminu, ef þú ert hluti af hópi sem vantar rými eða ef þú hefur áhuga á því að skipuleggja andrými, þá fögnum við því að fá þig til liðs við okkur!

 

Samfélagið:

Fjöldi fólks venur komur sínar í Andrými – ungbörn sem og ömmur og afar, fólk frá fjarlægum heimshlutum sem innfæddir Reykvíkingar, og fólk af öllum kynjum og kynhneigðum. Við bjóðum flóttafólk og innflytjendur sérstaklega velkomin. Almennt deilum við einnig yfirlýstum vilja til þess að verða hluti af samfélagi og byggja það upp, sýna hvert öðru umburðarlyndi og vinna að sameiginlegu frelsi undan kúgun. Í andrými hvertjum við alla sem vilja taka þátt til þess að taka frumkvæði. Andrými er skipulagt af samvinnuhópi sem vinnur án stigveldis og stækkar og breytist stöðugt. Sem samvinnuhópur vinnum við í sameiningu að því að taka vel á móti fólki, halda rýminu opnu, öruggara og aðgengilegu.

Andrými byggir samskipti á gagnkvæmri aðstoð og samhjálp við ýmis samtök sem starfa eftir gildum sem samræmast þeim sem Andrými notast við. Að fenginni reynslu höfum við þó ákveðið að starfa ekki með stjórnmálaflokkum.

 

Hugmyndin:

Hver og einn einstaklingur hefur örlítið mismunandi hugmynd um Andrými og þannig á það að vera. Þó eru ýmsir þættir skýrir. Andrými hefur róttækan tilgang, nánar til tekið að greiða leið fyrir félagslegu og umhverfislegu réttlæti, frelsun fólks undan kúgun, umburðarlyndi og frelsi til hugsana og gjörða. Tilvist og skipulag Andrýmis fela einnig í sér róttækni með því að ögra viðteknum hugmyndum um eignarhald, stigveldi og markaðsvæðingu í heiminum, og leggja rækt við nýjar gerðir menningar, skilnings og félagslegra tengsla. Nafnið Andrými merkir m.a. „rými til að anda“ – í Andrými á fólki að líða eins og það geti leitað skjóls, safnast saman, velt hlutum fyrir sér, lært, skipulagt, og tekið þá reynslu með sér þegar það yfirgefur rýmið.