Undanfarið ár hefur Andrými vaxið upp úr hugmynd og orðið að raunverulegum stað sem fleiri hundruð hafa sótt heim. Nú þurfum við að flytja í stærra rými þar sem við getum verið sýnileg, öllum aðgengileg og haft opið daglega.

Andrými er og verður róttækt félagsrými. Við eigum okkur ýmsa drauma um framtíð þess, en gerum einnig ákveðnar kröfur. Rýmið á að vera tiltækt hópum og samtökum til að funda og safnast saman, og mun áfram hýsa anarkistabókasafnið Andspyrnu, sem veitir frían aðgang að róttækum bókum og bæklingum. Opið eldhús, sem nú er haldið vikulega, mun halda áfram, en þar söfnum við saman matarframlögum og eldum og borðum kvöldmat saman._6001517modified

Markmiðið með því að finna húsnæði fyrir Andrými til lengri tíma er annars vegar að viðhalda núverandi starfsemi og hins vegar að auka nærveru okkar, sýnileika og gagnsemi í samfélaginu enn frekar. Ætlunin er að hafa fasta opnunartíma með starfsfólki sem vinnur ýmist sjálfboðastarf eða launað starf, og skapa þannig öruggt og aðgengilegt rými þar sem öll eru velkomin. Sérstök áhersla verður lögð á að hvetja innflytjendur og flóttafólk til þátttöku. Okkur langar líka að reka kaffihús þar sem viðskiptavinir greiða í samræmi við getu, og nota til þess matvæli sem annars færu til spillis. Einnig er hugsanlegt að við getum boðið skrifstofuaðstöðu fyrir samtök með gildi og markmið sem samræmast okkar eigin, og/eða viðgerðavinnusmiðjur, tónlistaræfingarými og ýmislegt fleira, allt eftir möguleikum rýmisins sem við munum flytja í.

Ennfremur er það eitt af meginmarkmiðum Andrýmis að hvetja til og bjóða ókeypis rými til viðburða sem samræmast gildum okkar, sem fólk getur haldið og skipulagt sjálft. Þetta geta verið fyrirlestrar, kvikmynda- og heimildamyndasýningar, fjáröflunarviðburðir, tónleikar, listasýningar, félagslegir viðburðir, kunnáttu- og færnimiðlun (skill sharing) og vinnusmiðjur. Einnig viljum við gera ýmis úrræði aðgengilegri fyrir fólk sem á þarf að halda, með því að veita og viðhalda aðgangi að tölvum, interneti, skjávörpum, myndavélum og prentaðstöðu, og efna til viðburða með fríbúðum eða skiptimörkuðum þar sem fólk getur deilt nýtilegum hlutum sem það þarf ekki sjálft á að halda lengur.

Fjölmörg samtök á höfuðborgarsvæðinu hafa lýst yfir áhuga á félagsrými af því tagi sem við viljum stofna. Þessir hópar eru ýmist áhugasamir um Andrými sem fundarstað, vilja veita fjárhagslegan stuðning, eða einfaldlega styðja hugmyndina um rými af þessu tagi í Reykjavík. Við leitina að nýjum samastað fyrir Andrými höfum við vissar kröfur í huga. Rýmið þarf að vera stórt, staðsett miðsvæðis og nálægt stoppistöðvum almenningssamgangna, sérstaklega fyrir innflytjendur og hælisleitendur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins. Rýmið þarf að vera aðgengilegt öllum einstaklingum óháð getu. Einnig þarf það að vera búið eldhúsaðstöðu sem hentar fyrir vikulega opna kvöldverði.